Mér finnst eins og það hafi gerst í gær að fréttirnar bárust. Fréttir sem höfðu verið yfirvofandi dagana á undan en ég hafði ekki þorað að trúa. Ekki þorað að móttaka og sætta mig við. Svo skullu þær á mig eins og tvö tonn af áfengisblautu konfetti sem óðir partígestir trömpuðu á nóttina áður. Á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan kom það endanlega í ljós að ekkert yrði af Eurovision árið 2020. Árið sem við áttum að vinna. Rústa samkeppninni. Loksins, eftir alltof langa bið.

Ástæðan fyrir því af hverju keppnin var ekki haldin í fyrra er öllum ljós og þarf ekki að fara neitt út í. Það sem var hins vegar minna rætt um eru þær hræðilegu afleiðingar PED sem komu snemma í fyrra. Yfirleitt skellur PED með öllum sínum þunga á Eurovision-aðdáendur þegar að keppninni er lokið í maí og sigurvegari hefur verið krýndur. Þá leggjast aðdáendur í PED-dvala í nokkrar vikur, stundum mánuði áður en byrjað er að setja sig í gírinn fyrir næstu keppni. PED er ástand sem læðist upp að manni þó maður viti að það sé í vændum. Ástand sem þarf að eiga sinn tíma. Það þarf að heltaka mann svo maður nái sér á strik aftur. Maður tekur PED í sátt, bíður þolinmóður eftir að því ljúki og heldur svo áfram.

Það bjóst hins vegar enginn við að sýkjast af PED um miðjan mars. Ég myndi ekki óska versta óvini mínum að lenda í slíkum hörmungum. Hörmungum sem var algjörlega óvíst hvenær myndu enda.

Á tímabili hélt ég að ég yrði haldin PED að eilífu, svo slæmt var hugarástandið. Og nú er kannski komið að þeim tímapunkti að ég fari yfir hvað PED er fyrir þá sem blessunarlega ekki þekkja þetta ástand. Þið eruð heppin, trúið mér!

PED er skammstöfun sem stendur fyrir Post Eurovision Depression. Það lýsir sér í volæði, söknuði og sorg þegar að Eurovision-keppninni lýkur og varir ástandið þar til undirbúningur fyrir Eurovision hefst í löndum Evrópu. Einu sinni hélt ég að PED væri bara grín. Goðsagnarkennt fyrirbrigði. Þangað til ég upplifði það á eigin skinni. Ég ekki aðeins ærðist af sorg yfir því að Eurovision-keppninni væri lokið heldur fann fyrir mikilli sektarkennd og skömm yfir að láta þessa gleðifylltu og glimmerslegnu hátíð fara svona með sálarlífið.

En PED vegna Eurovision 2020 varði ekki að eilífu. Sem betur fer. Það varði samt næstum því í heilt ár. Tilfinningin þegar að PED álögunum var aflétt var engri annarri lík. Loksins er ég laus úr fjötrunum.

Ég losnaði úr þeim þegar að Daði og Gagnamagnið frumfluttu Eurovision-framlag Íslendinga, 10 Years, í þættinum Straumum á RÚV fyrir stuttu. Ég batt miklar vonir til Strauma og var fullviss um að þáttur tileinkaður Eurovision myndi blása í mig allsherjar Euro-peppi. Þátturinn var vægast sagt vonbrigði. Það er langt síðan ég sá svona arfaslakt sjónvarpsefni um jafn dásamlegan hlut og Eurovision er. Þátturinn þar sem Eurovision kom inn til að deyja. Þekkt og skemmtileg Eurovision-lög sett í misgóðar útsetningar sem allar enduðu eins. Þáttur þar sem Olsen-bræður voru túlkaðir sem nammipítsa þegar að allir vita að þeir eru frönsk pylsa með sinnepi og bjór. Þáttur sem tók sig of hátíðlega.

Ég þraukaði og þrældi mér í gegnum þáttinn. Píndi börnin til að horfa. Sussaði reglulega. Því í endann kæmi jú Daði. Það hélt familíunni á lífi. Svo kom að því. Daði steig á svið. Allt stöðvaðist. Allir símar lagðir til hliðar. Smjattið hljóðnaði. Hjartað hoppaði upp í háls með tilþrifum. Í þrjár mínútur var umheimurinn ekki til. Bara við og Daði. Þegar að lagið var búið sagði miðjubarnið: „Þessi drepleiðinlegi þáttur varð loksins þess virði!“ Já, krakkar. Upphafið skiptir ekki alltaf máli ef endalokin eru góð og þessi endalok, þessi loka konfettisprengja var stórkostleg!

Er Daði að fara að vinna með 10 Years? Nei, líklega ekki. En kannski. Er það jafn gott og Think About Things? Nei, en samanburðurinn er hreint og beint ósanngjarn. Mun Daði massa þetta og sjá til þess að hver einasti Íslendingur brosir út að eyrum þegar við komumst áfram í úrslit? Heldur betur!

Þegar að PED-álögunum var aflétt dembdi ég mér í peppið – að hlusta á öll hin lögin í keppninni. Þar kennir ýmissa, misöflugra grasa eins og fyrri daginn. Lítið sem ekkert sem kemur á óvart. En það verður að segjast að keppnin er ekkert sérstaklega hörð. Norðmenn spila öruggan leik með englavængjum og dramatík. Nánast jafn leiðinlegt og laugardagskvöld í Osló. Kýpverjar eru samir við sig og senda inn algjöran hittara, El Diablo. Lagið hefur reyndar vakið upp mikla reiði og mótmælendur kaþólsku rétttrúnaðarkirkjunni staðhæfa að lagið upphefji djöfladýrkun. Gæti orðið skemmtilegt drama í kringum það, nema allir séu komnir með upp í kok af rétttrúnaði.

Svíinn Tusse með lagið Voices er ansi sigurstranglegur, sem og hin maltneska Destiny með valdeflandi slagarann Je Me Casse. Laginu Tout L’univers með Gjon’s Tears frá Sviss er spáð sigri. Það finnst mér persónulega afar ólíklegt. Lagið er hálfgerð stæling á sigurlagi Hollands árið 2019, Arcade, og frekar lítið spennandi. Flutningurinn er góður en ég bind vonir við að eftir þessa fordæmulausu tíma að Evrópa velji megastuð og pepp sem sigurlag Eurovision í ár.

Helsti keppinautur Íslands í fyrra var litháenska sveitin The Roop. Líkt og Think About Things vakti lag þeirra í fyrra, On Fire, mikla lukku, sem og danssporin. Í ár teflir sveitin fram laginu Discoteque og er spáð sjöunda sæti þegar að þetta er skrifað, sæti fyrir ofan okkur Íslendinga. The Roop veldur mér ákveðnum vonbrigðum með laginu en ég hef trú á að sveitin bæti það upp með geggjaðri sviðsframkomu og verði meðal topp fimm laga.

Annað land sem veldur mér vonbrigðum er Grikkland. Þar syngur Stefania um síðasta dansinn, Last Dance, en Grikkir eru þekktir fyrir að breiða út gleðiboðskapinn á sviðinu. Síðasti dansinn hennar Stefaniu er hins vegar ein, stór feilnóta. Það er líka rússneska framlagið, Russian Woman. Eftir mörg ár af frábærum Eurovision-lögum hafa Rússar nú gjörsamlega tapað taktinum. Ég nenni svo ekki einu sinni að eyða orðum í Ástralíu sem eiga fyrir löngu að vera farnir úr keppninni. Sorrí, Ástralir.

Verðlaun fyrir hallærislegasta framlagið fá því miður frændur okkar Danir. Bara nafnið á bandinu lætur hárin rísa á bakinu – Fyr & Flamme. Mér líður eins og lagið Øve os på hinanden sé tekið beint úr dönsku bókinni Skal vi snakke sammen? sem ég bölvaði í sót og ösku í grunnskóla. Ágætis hlustunaræfing til að lífga upp á niðurdrepandi dönskutíma en það er ekkert fyr og flamme við Fyr & Flamme.

Af þeim löndum sem er spáð frekar döpru gengi þá myndi ég halda að Rúmenía, Portúgal og Austurríki gætu komið hvað mest á óvart.

Keppnin er samt galopin. Fjörutíu lönd keppast um Eurovision-hljóðnemann og eftir ár af innilokun, heimavinnu, volæði, sjálfsvorkunn, aukakílóum og útgöngubönnum þá held ég að það sé nær ómögulegt að spá fyrir um hver sigrar. Flytjandinn sem sigrar mun geta hreyft við Evrópu. Framkallað bros. Miðlað gleði og hlýju. Látið okkur skemmta okkur og dansa saman í hæfilegri fjarlægð frá hvoru öðru. Koma okkur á óvart. Daði tikkar í öll boxin.

Laugardagskvöldið 22. maí kemur í ljós hvaða lag sameinar Evrópu árið 2021. Þetta lag hefur aldrei verið mikilvægara. Ef einhver getur valdið þessari pressu er það hin eilíft sjarmerandi Daði og flippuðu fylgifiskarnir í Gagnamagninu. Ég veit ekki með ykkur, en ég er brjálæðislega spennt fyrir því hvernig þetta fer allt saman. Þangað til ætla ég að taka á móti hverjum degi með brosi og þakka fyrir að PED-bölvunin er á bak og burt. Allavega þangað til 23. maí.