35 prósent allra vefsíðna í heiminum í dag eru í WordPress, eða um 455,000,000 talsins.
Vefumsjónarkerfið WordPress fagnar sextán ára afmæli í ár. Í fyrstu var WordPress hugsað sem tól fyrir bloggara, en í dag nota mörg risastór nöfn kerfið fyrir sínar heimasíður, svo sem DV, People Magazine, Mercedes-Benz, Variety, MTV News, Beyoncé og Katy Perry.
Alls eru um 455,000,000 vefsíður í WordPress í dag. Talið er að um 35 prósent allra vefsíðna í heiminum séu í WordPress og fer talan hækkandi dag frá degi, en um fimm hundruð vefsíður eru búnar til í WordPress á degi hverjum. Ástæðan fyrir vinsældum kerfisins er einföld. WordPress er notendavænt vefumsjónarkerfi sem gerir notendum kleift að hugsa um síðuna sjálfir þegar að forritarar og hönnuðir hafa lokið sinni vinnu. WordPress getur nefnilega verið eins einfalt og eins flókið og þú vilt að það sé.
1. Örugg leið
Eins og áður segir fagnar WordPress fimmtán ára afmæli sínu í ár og því er komin mikil og góð reynslu á kerfið. Og af því að svo margar vefsíður eru í WordPress eru margir búnir að sérhæfa sig í að forrita og hanna síður í kerfinu. Það er því leikur einn að biðja um hjálp ef maður lendir í vandræðum. WordPress er orðið rótgróið kerfi og er ekki að fara neitt. Því er afar öruggt að veðja á WordPress þegar kemur að vefsíðuþörfum.
2. „Open Source“ vefumsjónarkerfi
„Open Source“ þýðir í raun að kóðinn í WordPress-kerfinu er ókeypis og aðgengilegur öllum notendum. Því geta allir þeir sem hafa aðgang að heimasíðunni breytt kóðanum eins og þeir vilja. Hægt er að hlaða niður kóðanum þegar þess er þörf og það kostar ekki krónu. Auk þess er að finna alls kyns viðbætur (e. plugins), nánar tiltekið rúmlega þrjátíu þúsund talsins, inni í WordPress og notendur geta valið úr ríflega þrjú þúsund þemum fyrir vefsíðuna sína. Það eina sem þarf til að hefja vefsíðuþróun í WordPress er lén og hýsing.
3. Leitarvélar elska WordPress
Það er draumur hvers vefsíðueigenda að skora hærra í leitarvélum og margir eyða fúlgu fjár til að ná því markmiðið. WordPress er hins vegar hannað með leitarvélabestun í huga. WordPress gefur til dæmis öllum síðum og færslum sérstæð „meta tag“ lykilorð sem hjálpar leitarvélum mikið. Inni í WordPress-kerfinu er einnig hægt að fylgjast með hvernig hver færsla eða síða skorar í leitarvélum og gera einfaldar breytingar til að gera þá sérstöku síðu eða færslu meira heillandi í augum leitarvélarisanna.
4. Einfalt að breyta
Mennirnir eldast og vefsíður með. Það vill enginn vera með sömu vefsíðuna í mörg ár, jafnvel áratugi. Hins vegar getur það oft reynst fólki of flókið og erfitt að uppfæra vefsíður. Í WordPress er það leikur einn og það er hægt að breyta heilli vefsíðu með einum smelli. Eins og áður segir er líka ofboðslega lítið mál að finna sérfræðing í WordPress ef þig vantar aðstoð og ef þú ert virkilega óörugg/ur með að gera þetta sjálf/ur gæti borgað sig að biðja sérfræðinginn um að fara í málið.
5. Hjálp er alls staðar
Ekki fallast hendur ef þú átt ekki pening til að ráða sérfræðing. Með einföldu gúggli er hægt að finna lausn á hvaða WordPress-tengda vandamáli sem er. Á netinu eru spjallþræðir um allt og ekkert er tengist WordPress og á YouTube er að finna aragrúa af kennslumyndböndum til að létta þér lífið.
6. Viðbætur og þemu
Í WordPress er hægt að velja úr alls kyns þemum fyrir vefsíður. Sum þemu kosta peninga, önnur eru ókeypis. Sama má segja um allar endalausu viðbæturnar, en við viðbæturnar er ávallt stjörnugjöf þannig að þú sérð hvernig öðrum notendum fannst viðbæturnar. Þá er mjög mikilvægt að kíkja á hvenær viðbótin var síðast uppfærð. Ef hún hefur ekki verið uppfærð í meira en ár þá er líklegast best að leita annað. Gott er að hafa í huga að sumar viðbætur virka aðeins í sérstökum þemum og sumar viðbætur hafa slæm áhrif á aðrar viðbætur.
7. Hýsingin
Hægt er að hýsa WordPress-síður hvar sem er og best er að leita tilboða í hýsingu til að finna ódýrustu leiðina.
8. Öryggismál
Það er mikilvægt að verja WordPress-síðu fyrir árásum og í þeim efnum eru margir möguleikar. Hægt er að setja upp þjónustu eins og VaultPress, sem tekur afrit af síðunni ef ske kynni að hún færi niður. Þá er einnig mikilvægt að nota eingöngu örugg þemu í WordPress og taka sjálf/ur afrit af síðunni reglulega til að allt sé öruggt.
9. Ódýrir sérfræðingar
Það er nauðsynlegt að ítreka þann punkt sem hefur komið hér upp að það eru til mjög margir WordPress-sérfræðingar þarna úti. Það er því hægt að leita tilboða hjá ansi mörgum þegar um vefsíðugerð ræðir. Einnig er einfalt að skipta um WordPress-þjónustuaðila ef samstarfið gengur ekki vel. Það þýðir að þú festist ekki með vefsíðu sem þú ert óánægð/ur með eða í samstarfi sem virkar ekki fyrir þig.