Hún Lilja Katrín Gunnarsdóttir, textasmiðurinn okkar hér hjá Vefgerðinni og yfirbakari hjá Blaka, ætlar að halda svolítið öðruvísi maraþon helgina 17. – 18. september. Hún ætlar nefnilega að baka í 24 klukkustundir samfleytt á heimili sínu í Melgerði 21 í Kópavogi. Við erum að sjálfsögðu með veðmál um hvenær á þessum 24 klukkustundum hún sofnar ofan í smjörkremið!

Blaka bakar í sólarhring!

Lilja ætlar ekki að baka í allan þennan tíma bara út af því að henni finnst það svo gaman. Ó, nei. Hún ætlar að baka til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Þetta virkar þannig að fyrsta kakan fer í ofninn á hádegi laugardaginn 17. september. Síðasta kakan fer inn í ofn akkúrat sólarhring síðar, eða klukkan 12 á hádegi sunnudaginn 18. september. Á þessum sólarhringi, og eitthvað fram eftir sunnudeginum, eru allir velkomnir í kaffi og kökur heima hjá Lilju. Á heimilinu verða styrktarbaukar þar sem fólk getur styrkt Kraft og rennur allur ágóðinn til félagsins.

Þeir sem sjá sér ekki fært að mæta geta líka lagt beint inn á Kraft í gegnum styrktarsíðu þeirra hér. Bara muna að merkja greiðslurnar „Bökunarmaraþon“ eða „Blaka“ svo Lilja viti upp á hár hvað hún safnar miklu.

Við vitum hvað þið eruð að hugsa: Þetta er algjört brjálæði! Hvernig ætlar hún að fara að þessu? Jú, Lilja á nefnilega frábæra fjölskyldu sem styður hana 100%. En hún er líka með frábæra styrktaraðila á bak við sig sem gera þetta mögulegt. Þeir eru Floridana, Senseo, Pepsi Max, Lífland, Kornax, Nesbú, Katla, Royal, Góa, MS og Krónan.

Endilega fylgið Lilju á Snapchat - þið sjáið ekki eftir því.

Hægt verður að fylgjast með herlegheitunum á Facebook– og Instagram-síðu Blaka, sem og á Snapchattinu hennar Lilju, en notendanafnið hennar þar er liljagunn. Við mælum með því að þið byrjið strax að fylgja henni á Snappinu því hún býður oft upp á einfaldar uppskriftir í beinni. Þá setur hún allar uppskriftir sem hún bakar eftir í maraþoninu inn á blaka.is þegar tími gefst.

Við hvetjum alla til að mæta og styrkja gott málefni, borða geggjaðar kökur og hafa gaman. Lilja lofar allavega að það verði nóg af rjóma og nóg af súkkulaðisyndum og að andrúmsloftið verður kolvetnaþrungið.

Kíkið á viðburðinn á Facebook hér og bjóðið öllum vinum ykkar!