Bökunarséníið og textasmiður Vefgerðarinnar, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, er ansi hreint bjartsýn svona rétt fyrir jól og er á fullu að safna inn á Karolina Fund fyrir bökunarbiblíu. Já, þið lásuð rétt – bökunarbiblíu!

Lilja virðist haldin einhverri sjúklegri söfnunaráráttu því við höfum sagt frá því hér á blogginu að hún og maðurinn hennar, Guðmundur R. Einarsson, stóðu fyrir bökunarmaraþoni á heimili sínu í september þar sem þau söfnuðu rúmlega hálfri milljón fyrir Kraft. Og forsetinn mætti í eldhúsið heim til þeirra og felldi tár! Goðsagnakennd stund!

En aftur að bókasöfnuninni. Lilju hefur dreymt um að gefa út bökunarbók lengi, lengi og er nú að safna fyrir prentuninni, sem kostar skildinginn, á Karolina Fund. Eiginmaðurinn sér um hönnun og uppsetningu á bókinni, enda verðlaunahönnuður, en Lilja sér að sjálfsögðu um að baka allt í bókinni. En það verða ekki bara uppskriftir í bókinni. Ó, nei! Í bókinni verður líka alls kyns sykursætur fróðleikur, skotheld ráð og ýmislegt fleira sem gerir baksturinn ekki aðeins skemmtilegri heldur einfaldari. Ef þið hafið lesið bloggið hennar, Blaka, vitið þið alveg hve gómsæt þessi bók verður!

Lilju vantar þína hjálp. Hún þarf að safna einhverjum Evrum í viðbót en það er hægt að tryggja sér bókina fyrirfram á spottprís með því heita á hana. Svo er líka hægt að næla sér í einstakt kökuboð og fá köku í bókinni skírða í höfuðið á sér. Tilboð aldarinnar – ekki missa af því!

Styrkið Lilju hér.