Það er eitthvað heillaský yfir Vefgerðinni þessa dagana, og reyndar síðustu mánuði. Alheimurinn hreinlega elskar okkur!
Í gær fengum við tilkynningu um það að vefsíða sem við bjuggum til, og erum svo stolt af, Must See in Iceland, er tilnefnd til hinna virtu Awwwards-verðlauna.
Awwwards-verðlaunin heiðra framúrskarandi verk í vefbransanum á degi hverjum en hópur sérfræðinga á sviði hönnunar, skapandi skrifa og listrænnar stjórnunar, svo eitthvað sé nefnt, skipar dómnefndina. Ekkert slor þetta fólk þarna hjá Awwwards – þvílíkur heiður að fá tilnefningu!
Það skemmtilega við þessi verðlaun að fólk alls staðar að úr heiminum getur kosið og gefið verkefnum einkunn, svo lengi sem það er skráð inn á síðu verðlaunanna. Það er ekkert mál að skrá sig og einfaldlega hægt að tengjast í gegnum Facebook. Kosningin fer fram hér og okkur þætti vænt um ef þið gætuð tekið ykkur nokkrar mínútur og hjálpað okkur. Það kemur svo í ljós eftir viku hvort Must See in Iceland hreppir hnossið.
Þetta er ekki fyrsta tilnefning Must See in Iceland en síðan hefur verið tilnefnd til CSS Design-verðlaunanna og Design Nominees-verðlaunna sem Site of the Day, eða Besta vefsíða dagsins. Hvar endar þetta?
Svo muniði náttúrulega eftir hinni ferðasíðunni sem við gerðum og sópaði til sín verðlaun, Mekong Tourism. Ætli Must See in Iceland verði sami öskubuskusagan? Við vonum það allavega!
Góðar stundir – og munið að kjósa! Áfram Must See in Iceland!