Við hjá Vefgerðinni höfum rekið bloggsíðuna Blaka síðustu tæpu þrjú árin, en vefsíðan fagnar þriggja ára afmælinu síðun þann 2. júní næstkomandi.
Blaka er gríðarlega vinsæl og heimsækja hana mörg hundruð manns í hverri viku, þannig að okkur fannst tími til kominn að taka hana í smá yfirhalningu. Vefsíðan þjónaði vissulega sínum tilgangi en okkur langaði að gera hana enn gómsætari svo hún gæti kitlað fleiri bragðlauka en áður.
Við vildum enn fremur leika okkur meira með liti á síðunni, þá liti sem eru mest áberandi í lógói Blaka. Við vildum einnig tengja síðuna betur við samfélagsmiðla Blaka, eitthvað sem hafði alls ekki verið áhersluatriði. Samt er síðan með rúmlega 2500 fylgjendur á Facebook, svo dæmi séu tekin. Ótrúlegt hvað dísætt og dásamlegt efni getur komið manni langt.
Við tókum forsíðuna algjörlega í gegn. Við bættum við stórri banner mynd efst á síðunni með vísan í uppskriftasafnið, sem telur nú tæplega þrjú hundruð uppskriftir. Við aðgreindum einnig hvern flokk með lit úr lógóinu og gerðum lesendum kleift að fara á milli flokkanna á forsíðunni á einfaldari hátt. Þá leyfðum við þeim uppskriftum sem eru mest lesnar þann daginn að eiga pínulítið sviðið neðst á síðunni. Þær eiga það nú einu sinni skilið þessar vinsælu elskur!
Við áttum ekki mikið við uppskriftasíðurnar sjálfar, fyrir utan breytingar á stikunni hægra megin þar sem við komum aðalmyndinni fyrir, sem og fallegri flokkatengingu en áður var.
Vefsíðan í heild sinni er, að okkar einlæga mati, alveg ofboðslega falleg og ekki skemmir fyrir að efnið sem hana prýðir er einnig sérstaklega glæsilegt. Þá er vefsíðan einnig þeim eiginleikum gædd, þar sem hún er búin til í WordPress, að geta bætt ýmsum blómum á sig. Það kemur sér vel með vorinu þegar fyrsta Blaka bókin kemur út og verður hún að sjálfsögðu seld á síðunni.
Hér fyrir neðan getið þið séð mynd af vefsíðunni eins og hún leit út fyrir breytingarnar og svo nýjar myndir af síðunni. Við mælum með að þið kíkið inn á Blaka við fyrsta tækifæri ef ykkur langar að spreyta ykkur í eldhúsinu!