Í gærkvöldi opnuðum við glænýja heimasíðu fyrir vini okkar hjá Laxnes hestaleigu. Af hverju finnum við þörf fyrir að skrifa heilt blogg um það? Jú, af því að við erum svo sjúklega ánægð með útkomuna!

Það er náttúrulega leikur einn að vinna með fólkinu í Laxnesi. Þar er sko ekki hugsað í vandamálum. Þar er hugsað í lausnum og það er alveg sama hvað bjátar á, Laxnes liðar eru alltaf eiturhressir og yndislegir.

Laxnes liðar eru alveg með’etta

Við ákváðum að poppa síðuna aðeins upp, bæta smá lit í hana og gera allar ferðirnar sem Laxnes býður uppá meira áberandi. Það eru komin nokkur ár síðan við byrjuðum að vinna fyrir Laxnes og höfum við sagt frá því áður að sala á síðu hestaleigunnar tók gríðarlegt stökk uppá við eftir að við nýttum okkur mátt leitarvélabestunar, eða SEO, og tengdum bókunarkerfið Bókun beint við síðuna, sem er í WordPress. Nú selur Laxnes mikið magn ferða í gegnum sína eigin síðu og losnar þannig að mestu leyti við alla milligöngumenn. Ef þið trúið okkur ekki, getið þið bara tekið ykkur bíltúr uppí hestaleiguna einhvern tímann og séð þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem skellir sér á bak á hverjum einasta degi.

Starfsmenn Laxness eru líka duglegir á samfélagsmiðlum og skrifa blogg við og við til að halda lífi á síðunni og fóðra leitarvélarnar. Það skiptir gríðarlega miklu máli, en það skiptir líka öllu máli að starfsmenn Laxness eru alltaf til í að prófa nýja hluti og þróa síðuna áfram inní framtíðina. Okkur finnst ofboðslega gaman að vinna með svona skapandi og opnu fólki. Eins gott að þeim hjá Laxnesi finnist líka gaman að vinna með okkur – annars er þetta frekar vandræðaleg bloggfærsla!

Samstarfi okkar og Laxnes er ekkert að fara að ljúka á næstunni og núna bíðum við bara spennt eftir næstu ævintýrum!

Kíkið á nýju síðuna hér.